Lífið

Þarf að læra Quarashi-lögin aftur

Quarashi fyrir fimmtán árum. Frá vinstri eru Höskuldur Ólafsson, plötusnúðurinn Richard Hauksson og Steinar Fjeldsted. Sölvi Blöndal krýpur fyrir framan þá. Mynd/ÞÖK
Quarashi fyrir fimmtán árum. Frá vinstri eru Höskuldur Ólafsson, plötusnúðurinn Richard Hauksson og Steinar Fjeldsted. Sölvi Blöndal krýpur fyrir framan þá. Mynd/ÞÖK
Quarashi kemur saman á nýjan leik á Bestu útihátíðinni sem verður haldin í júlí. Söngvarinn Höskuldur Ólafsson snýr aftur eftir að hafa hætt óvænt árið 2003.

Rappsveitin Quarashi, sem hætti störfum árið 2005, hefur ákveðið að snúa aftur og spila á Bestu útihátíðinni sem verður haldin aðra helgina í júlí. Tíðindin eru óvænt, sérstaklega í ljósi þess að forsprakkinn Sölvi Blöndal vísaði endurkomunni algjörlega á bug í samtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði.

Endurkoma Quarashi er sérstök að því leyti að þetta verður í fyrsta skiptið sem rappararnir Höskuldur Ólafsson, Steinar Fjeldsted, Ómar „Swarez" Hauksson og Egill „Tiny" Thorarensen koma allir saman fram með sveitinni.

Höskuldur hætti óvænt í Quarashi árið 2003. Hann hefur undanfarin tvö ár stundað meistaranám í Norwich á Englandi, fyrst í listfræði og síðan í heimspeki. Hann telur að fimmtán ára afmæli sveitarinnar hafi eitthvað með endurkomuna að gera. „Ég var búinn að segja skilið við þennan kafla lífs míns fyrir löngu. Þetta hefur komið upp reglulega í gegnum árin, svona kommbakk, en við höfum aldrei tekið þau boð neitt alvarlega," segir Höskuldur. „Ég sagði skilið við Quarashi þegar ég var 25 ára og ég er núna 33 ára. Það er enginn maður yfir 35 að fara að flytja þessi lög aftur, þannig að það var nú eða aldrei."

Hann segist hafa þurft að hugsa sig vel um áður en hann ákvað að vera með á nýjan leik, enda mikið að gera í skólanum og útskrift fram undan í september. „Ég þarf eiginlega að læra þessi lög aftur upp á nýtt og þyrfti helst að fara út að hlaupa. Ég er ágætlega á mig kominn þrátt fyrir að hafa setið yfir námsbókunum í hátt í tvö ár en það er ekki fyrir hvern sem er að rappa fimm hundruð orð á mínútu."

Spurður út í brotthvarf sitt úr Quarashi á sínum tíma og þrálátan orðróm um ósætti við upptökustjórann og trommarann Sölva Blöndal gefur Höskuldur upp tvær útskýringar, þá opinberu og þá réttu: „Við vorum búnir að vera að túra í eitt og hálft ár og ég var ástfanginn af ungri stúlku á þessum tíma sem ég saknaði mjög mikið. Þess utan var ég hálfnaður með BA-nám í íslensku og bókmenntafræði sem mig langaði að taka upp aftur," greinir hann frá.

„En samband okkar Sölva var líka komið á svolítið hálan ís. Það gerist oft þegar tveir skapandi menn sem eru ekki hræddir við að segja sína skoðun koma saman. Við vorum að klára Evróputúr og vorum í lest á leið frá Mílanó til Amsterdam. Sem við keyrum inn í stór og löng jarðgöng í svissnesku Ölpunum byrjuðum við Sölvi að rífast um hvort Spinal Tap væri alvöru mynd eða ekki. Þegar við komum út úr þeim var ljóst að samstarfið var á enda runnið. Við sáum ljósið."

Hin útskýring Höskuldar er þessi: „Við vorum á leiðinni út á flugvöll eftir gigg í Amsterdam eða London og sem ég stíg upp í bílinn átta ég mig á að ég hef gleymt símanum uppi á herbergi. Á leiðinni niður festist lyftan. Strákarnir gátu að sjálfsögðu ekki beðið eftir mér því það var aðeins klukkutími þar til vélin færi í loftið. Þegar ég kem heim til Íslands nokkrum mánuðum seinna eru þeir búnir að skipta mér út fyrir Tiny."

Spurður hvort það hafi virkilega tekið hann nokkra mánuði að losna úr lyftunni útskýrir hann að hann hafi lent í sérstaklega slæmum umferðarhnút á leiðinni út á flugvöll.

Hann segist aðeins ætla að koma fram á þessum einu tónleikum í sumar en veit ekki með hina í hljómsveitinni. Spurður hvort hann mæti ekki í toppformi segir hann: „Ég geri mitt besta. Að vísu hefur okkar form verið mjög furðulegt í gegnum tíðina. Ég man að einu sinni spiluðum við í Washington DC fyrir framan fjörutíu þúsund manns. Þá var Steini í hjólastól eftir að hafa stokkið út í áhorfendaskarann á tónleikum í Rhode Island þannig að ég held að mitt form verði seint slæmt ef það er sett í samhengi við formið á Steina þá."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.