Lífið

Keppir við þá bestu

Torfi Þór Torfason.
Torfi Þór Torfason.
Reykvíkingurinn Torfi Þór Torfason matreiðslumaður bar sigur úr býtum í kaffibarþjónakeppninni World Brewers Cup í Kaupmannahöfn nýlega. Frammistaðan tryggir honum þátttökurétt í heimsmeistarakeppni í Hollandi í sumar eins og frá er greint á freisting.is.

„Þetta var keppni í að búa til svart kaffi upp á gamla mátann, í gegnum filter,“ segir Torfi Þór, sem hellti upp á kaffitegundina Kieni frá Kenya. „Bragðið er ferskt og berjaríkt og lyktin lík og af brenndum fíkjum,“ lýsir hann.

Torfi Þór hefur starfað á kaffibarnum Coffee Collective á Norðurbrú í Kaupmannahöfn í fimm mánuði. Hann þakkar sigurinn ekki síst eigendum og öðrum starfsmönnum staðarins, af þeim hafi hann mikið lært, enda sé þar hver meistarinn eftir annan.

Um helgina tók Torfi Þór þátt í gjörningi á Coffee Collective þar sem hann hellti upp á verðlaunadrykkinn. „Yfirleitt er röð út á götu því hér er sérstök aðferð notuð við að rista kaffið sem ýtir undir náttúrulega eiginleika baunanna. Við þykjum bjóða langbesta kaffið í Danmörku og með því besta í heimi.“

gun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.