Innlent

Dómstólar herða refsingar

Páll Winkel.
Páll Winkel.
Ákæruvaldið í landinu er farið að krefjast harðari refsinga yfir kynferðisbrotamönnum og dómstólar farnir að herða þær. Umræðan í samfélaginu frá almenningi, stjórnmálamönnum, grasrótarsamtökum og þolendum kynferðisbrota er farin að skila árangri í þyngri dómum. Þetta er mat Helga Gunnlaugssonar, afbrotafræðings við Háskóla Íslands.

Mikil aukning hefur orðið í óskilorðsbundnum dómum yfir brotamönnum sem hafa níðst kynferðislega á börnum, en 21 einstaklingur sat í fangelsi í fyrra fyrir barnaníð. Árið 2001 sat einn inni og það sem af er ári hafa fjórtán setið í fangelsi fyrir slík brot. Hafa ber í huga að fjöldi barnaníðinga sem sitja inni safnast upp og því var talan svo há í fyrra.

Að mati Helga hefur aukin umræða gert það að verkum að fólk er óhræddara við að kæra kynferðisbrot og því fái lögreglan fleiri kærur inn á borð til sín. Umburðarlyndið fyrir brotunum minnkar með hverju árinu og því má segja að þau séu meira uppi á yfirborðinu og rannsóknaraðilar taki þeim alvarlegar en áður.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, segir marga samverkandi þætti ástæður fjölgunarinnar. Hann nefnir þar að rannsóknaraðferðir lögreglunnar hafi batnað, Barnahús var stofnað, samvinna Barnaverndarstofu og lögreglu jókst sem og aukin menntun í geiranum almennt.

„Þá kannski síðast en ekki síst stofnun kynferðisbrotadeildar lögreglunnar sem var sett á laggirnar árið 2007,“ segir Björgvin og bætir við að ákæruvaldið hafi einnig stigið ákveðið skref í sömu átt og fyrrgreindar stofnanir.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir brýnt að bregðast við þessari fjölgun því þeir fangar sem brjóta gegn börnum kynferðislega eru „lægst settir“ innan fangasamfélagsins.

„Það er skylda okkar að bjóða þeim sem bestar aðstæður, líkt og öðrum,“ segir Páll.

Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun hafa þó ekki orðið miklar sveiflur síðan árið 2001, að undanskildum árunum 2009 og 2010, í fjölda dóma innan hvers árs þar sem dómþoli hefur verið dæmdur annars vegar í óskilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum og hins vegar í skilorðsbundna refsingu.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×