Innlent

Mörg ljón enn í vegi Helguvíkurálvers

Flóknar og erfiðar samningaviðræður eru framundan til yfirstíga þær hindranir sem enn eru í vegi álvers í Helguvík, ekki aðeins um orkusamninga heldur einnig um línulagnir og fjármögnun nýrra virkjana.

Bæði Norðurál og HS Orka lýstu því yfir þegar gerðardómurinn lá fyrir í gær að þau myndu nú ganga til samninga. Norðurál þarf einnig að ljúka samningum við Orkuveitu Reykjavíkur, en Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir samningana á margan hátt sambærilega og gerir ráð fyrir að menn túlki þá á svipaðan hátt; að samningar séu í gildi. Orkuveitan hefur óskað eftir því að sjá gerðardóminn, að sögn Bjarna Bjarnasonar forstjóra, sem fyrr kveðst lítið geta tjáð sig.

Gerðardómurinn skyldar HS Orku til afhenda umsamda raforku til Helguvíkurálvers en viðurkennir þá fyrirvara að orkuverðið tryggi viðunandi arðsemi af virkjunum og þar með að það takist að fjármagna þær á viðunandi lánakjörum. Fjármögnun virkjana gæti reynst þung á næstunni en Orkuveitan hefur rætt við lífeyrissjóði um að þeir komi að Hverahlíðarvirkjun.

Línulagnir um Suðurnes eru enn eitt ljónið í veginum eftir að sveitarfélagið Vogar krafðist þess í haust að línur yrðu lagðar í jörð. Landsnet hafnar þeirri kröfu og hyggst sækja um framkvæmdaleyfi fyrir loftlínum til viðkomandi sveitarfélaga eftir áramót.

Þrátt fyrir allar hindranir kveðst bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, ánægður með gerðardóminn, hann gefi mönnum tækifæri á að ljúka verkinu og hljóti að auka mönnum bjartsýni um framhaldið, en kveðst þó varkár og segir bæjarfélagið ekki ætla að gera ráð fyrir tekjum af álveri á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×