Enski boltinn

Hughes sterklega orðaður við Aston Villa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mark Hughes, stjóri Fulham.
Mark Hughes, stjóri Fulham. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar halda því fram að Mark Hughes sé reiðubúin að hætta störfum hjá Fulham til að taka við stjórastöðunni hjá Aston Villa.

Hughes er sagður vera með klausu í sínum samningi sem gerir honum kleift að fara frá félaginu fyrir tiltölulega litla upphæð.

Í gær var tilkynnt að Gerard Houllier væri hættur með Aston Villa en Hughes mun vera efstur á óskalista Randy Learner, eiganda Aston Villa.

Hughes hóf þjálfaraferil sinn sem landsliðsþjálfari Wales árið 1999. Fimm árum síðar tók hann við Blackurn þar sem hann var í fjögur ár, áður en hann fór til Manchester City árið 2008.

Þar entist hann aðeins í eitt og hálft tímabil og tók hann við Fulham síðastliðið sumar. Hann fékk Eið Smára Guðjohnsen að láni frá Stoke um mitt tímabil og vill halda honum þar.

Eiður hefur þó ekki skrifað undir samninginn enn og ætlar að skoða sín mál betur eftir landsleikinn um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×