Albert Pujols sýndi styrk sinn í nótt þegar lið hans St. Louis Cardinals vann 16-7 sigur á Texas Rangers og náði 2-1 forystu í úrslitaeinvígi bandaríska hafnarboltans, World Series.
Pujols, sem er að mörgum talinn vera besti leikmaður deildarinnar, var ekki búinn að geta neitt í fyrstu tveimur leikjunum en bætti all verulega úr því í nótt.
Hann jafnaði þrjú met í úrslitaeinvígi með því að slá boltanum þrisvar upp í stúku, hitta boltann fimm sinnum og ná alls í sex stig fyrir lið sitt.
Pujols jafnaði meðal annars met goðsagnanna Babe Ruth og Reggie Jackson með því að komast þrisvar í heimahöfn.
„Vonandi get ég í lok ferilsins horft til baka og sagt: Vá, þvílíkur leikur hjá mér í leik þrjú í úrslitunum árið 2011," sagði Albert Pujols.
Sögleg frammistaða Pujols og Cardinals-liðið komið 2-1 yfir
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
