Innlent

Íslendingar búnir að kaupa 500 þúsund lítra af jólabjór

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Íslendingar eru bjórþyrstir þessi jól líkt og hin fyrri en tæplega fimmhundruð þúsund lítrar af jólabjór hafa nú þegar verið seldir. Sá allra vinsælasti er danskur en íslenski Víkingurinn veitir honum harða samkeppni.

Rétt tæplega 473 þúsund lítrar af jólabjór hafa selst frá því að hann kom í verslanir um miðjan síðasta mánuð. Á sama tíma í fyrra var búið að selja 355 þúsund lítra og því nemur aukningin rúmlega 30 prósentum milli ára. Sölutímabil jólabjórsins stendur fram á þrettándann en heildarsalan í fyrra nam 370 þúsund lítrum þannig að nú þegar er búið að selja rúmlega 100 þúsund lítra meira magn.

En hvaða jólabjórar ætli séu vinsælastir hjá landanum þetta árið?

Samkvæmt tölum frá ÁTVR hefur mest selst af hinum danska Turborg Christmas brew. Þar á eftir kemur Víking Jólabjór. Þriðja sætið vermir Kaldi jólabjór en Egils Jólagull það fjórða. Víking Jóla Bock kemur þar á eftir og Egils Malt jólabjór vermið sjötta sætið. Þess má geta að tegundirnar eru mun fleiri.

Verðmæti sölunnar í ár nemur tæplega 436 milljónum króna sem er aukning um tæp fimmtíuprósent frá fyrra ári þegar salan nam 295 milljónum.

Margar tegundir eru nú þegar uppseldar hjá framleiðendum sem og innflytjendum og því fá Vínbúðirnar ekki mikið magn til viðbótar. Þeir sem hafa sérstakt dálæti á jólabjór verða þess vegna að hafa hraðar hendur ef þeir ætla að skola nokkrum köldum niður þessi jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×