Enski boltinn

Torres ætlar ekki að hætta hjá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fernando Torres segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að hann vilji hætta hjá Liverpool og hvetur stuðningsmenn til að styðja liðið.

Torres hefur verið sagður óánægður í Liverpool vegna slæms gengis liðsins í haust en á föstudaginn var Roy Hodgson rekinn sem knattspyrnustjóri liðsins. Kenny Dalglish mun stýra liðinu til lok leiktíðar.

Hann hefur til að mynda verið orðaður við Manchester United en liðin mætast einmitt í ensku bikarkeppninni í dag.

Torres segir ekkert hæft í því en hann er samningsbundinn Liverpool til loka tímabilsins 2013. Hann ætlar að klára þann samning.

„Við þurfum að standa saman, sérstaklega núna," sagði Torres. „Við þurfum að lifa í núinu og taka fyrir einn leik í einu."

„Við þurfum að fá fleiri stig, vinna leiki og bæta stöðu okkar í töflunni. Um það snýst okkar áskorun og ég krefst þess að stuðningsmenn styðji okkur heils hugar í þeirri baráttu."

„Ég er einbeittur að því að vera áfram í Liverpool og hjálpa til við að bjarga tímabilinu okkar. Ég er fagmaður og mun ávallt standa við gerða samninga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×