Innlent

Gunnar Smári: Svandís á að segja af sér

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson.

„Ráðherra sem misbeitir sínu valdi með þessum hætti á að segja af sér. Ráðherra verður að fara að lögum," sagði fréttamaðurinn Gunnar Smári Egilsson, í Silfri Egils þar sem rökrætt var um niðurstöðu Hæstaréttar Íslands sem komst að þeirri niðurstöðu á fimmtudaginn að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefði ekki verið heimilt að synja staðfestingu skipulags Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Það gerði hún á þeirri forsendu að Landsvirkjun hefði greitt kostnað viðkomandi sveitarfélaga vegna skipulagsvinnu.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem var einnig gestur í Silfri Egils, sagði greiðslurnar í raun ígildi múta. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ásakanirnar alvarlegar enda viðkomandi aðilar sakaðir um lögbrot. Hún aftók að svo væri og sagði ásakanir þess eðlis ómálefnalegar.

Gunnar Smári sagði eðlilegast að Svandís segði af sér sem ráðherra og bætti við að það væri óþolandi þegar stjórnmálaflokkar færu á svig við lög vegna „æðri sjónarmiða," eins og hann orðaði það og benti í því ljósi á andstöðu ríkisstjórnarinnar við sölu HS Orku til Magma út af umhverfisverndarsjónarmiðum.

Hann sagði alla þurfa að fara að lögum. Væru menn sérstaklega ósáttir við Hæstarétt, líkt með niðurstöðuna varðandi stjórnlagaþingið, ættu þeir að bregðast pólitískt við því í staðinn fyrir tuða undan honum, eins og Gunnar orðaði það.

Mörður kom Svandísi til varnar og þvertók fyrir að hún hefði misbeitt valdi sínu. Hún hefði einfaldlega látið reyna á lögmæti þeirra vinnubragða Landsvirkjunar að greiða með þessum hætti fyrir undirbúningsvinnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×