Í fyrsta sinn í sögunni eru rétt rúmlega 10% af öllum íbúum Danmerkur eru nýbúar eða afkomendur þeirra.
Fjallað er um málið í Jyllands Posten. Þar segir að fjöldi nýbúa og afkomenda þeirra hefur aukist um tæplega 150.000 manns á kjörtímabilum hægri stjórnarinnar í landinu frá árinu 2002. Í heild eru nýbúarnir rúmlega 560.000 talsins.
Samsetning nýbúa hefur hinsvegar tekið miklum breytingum. Fyrir tíma hægri stjórnarinnar voru flóttamenn og fjölskyldumeðlimir um helmingur nýbúa í Danmörku en nú er þetta fólk um 15% hópsins. Í staðinn koma fleiri frá Evrópulöndum sem starfskraftar eða námsmenn.
Þannig hefur fjöldi nýbúa frá Póllandi, Litháen og Rúmeníu fjórfaldast á valdatíma hægri stjórnarinnar. Fjöldi Kínverja, Filippseyinga og Thailendinga hefur tvöfaldast.
Á móti hefur flóttamannastraumurinn frá Mið-Austurlöndum dottið niður og Sómölum í hælisleit hefur fækkað verulega.
Nýbúar orðnir fleiri en 10% af íbúum Danmerkur
