Fólk víða um heim um líma sig við sjónvarpsskjáinn í nótt þegar fram fer hreinn úrslitaleikur um heimsmeistaratitilinn í hafnabolta. Úrslitarimman, og úrslitakeppnin í heild sinni, er talin vera sú skemmtilegasta í manna minnum. Er því vel við hæfi að úrslitarimman fari í sjö leiki.
Það eru St. Louis Cardinals og Texas Rangers sem keppa um titilinn en oddaleikurinn fer fram í St. Louis. Cardinals tryggði sér oddaleik síðastliðna nótt í leik sem talinn er vera einn sá magnaðasti í amerískri íþróttasögu. Slík var dramatíkin að erfitt er að lýsa því með orðum.
Texas var aðeins einu kasti frá því að tryggja sér titilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Ekki bara einu sinni heldur tvisvar, takk fyrir. Cardinals átti svör á örlagastundum og menn spyrja sig að því hvernig andlegt ástand leikmanna verður eftir þennan ótrúlega spennutrylli.
Ef spennan var ekki næg fyrir þá gerði leikurinn í nótt það að verkum að það er nánast lögbrot að missa af leik næturinnar.
Leikurinn er í beinni útsendingu á ESPN America sem má sjá á fjölvarpi Digital Ísland. Hann hefst upp úr miðnætti.
Allt undir í hafnaboltanum í nótt
