Erlent

NATO býður samvinnu um eldflaugavarnir

Fogh Rasmussen segir Medvedev Rússlandsforseta ekki hafa útilokað frekari viðræður við NATO um eldflaugavarnir og vill reyna til þrautar að ná samkomulagi. mynd/NATO
Fogh Rasmussen segir Medvedev Rússlandsforseta ekki hafa útilokað frekari viðræður við NATO um eldflaugavarnir og vill reyna til þrautar að ná samkomulagi. mynd/NATO
Forystumenn Atlantshafsbandalagsins (NATO) reyna nú að sannfæra Rússa um að áform bandalagsins um varnir gegn langdrægum eldflaugum beinist ekki gegn þeim á nokkurn hátt. Utanríkisráðherrar NATO, sem koma saman til reglulegs fundar í Brussel í dag, munu á morgun eiga fund með Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, skrifaði grein í International Herald Tribune í gær, þar sem hann segir að nýleg gagnrýni Dimitrís Medvedev, forseta Rússlands, á eldflaugavarnakerfi NATO og skort bandalagsins á samstarfsvilja sé á misskilningi byggð. Medvedev hótaði að staðsetja rússneskar eldflaugar nálægt flaugum NATO.

Rasmussen leggur áherzlu á að bæði NATO og Rússlandi stafi ógn af um 30 ríkjum sem hafi komið sér upp langdrægum eldflaugum. „Það er skynsamlegt að við vinnum saman að því að verjast þeim, með því að smíða tvö aðskilin kerfi með sama markmið,“ skrifar framkvæmdastjórinn.

„Afstaða NATO er skýr. Við þurfum á eldflaugavörnum að halda en viljum byggja þær upp þannig að þær styrki samband okkar og samstarf við Rússland,“ sagði hátt settur embættismaður NATO í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í gær. „Það tilboð stendur.“

NATO stefnir að því að geta lýst því yfir á leiðtogafundi bandalagsins í Chicago í maí á næsta ári að fyrsti áfangi eldflaugavarnakerfis bandalagsins sé tilbúinn til notkunar. Tyrkland, Pólland og Rúmenía, auk fleiri NATO-ríkja, hafa lagt til aðstöðu fyrir varnareldflaugar.

- óþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×