Erlent

Jöklar í frönsku Ölpunum hafa misst fjórðung af flatarmáli sínu

Jöklarnir í frönsku Ölpunum hopa stöðugt og hafa þeir misst um fjórðung af flatarmáli sínu á síðustu 40 árum.

Í lok sjöunda áratugarins á síðustu öld náðu jöklarnir sem skríða niður hlíðar Mont Blanc og annarra fjalla í frönsku Ölpunum yfir svæði sem mældist 375 ferkílómetrar að stærð. Í lok síðasta áratugar hafði þetta svæði minnkað niður í 275 ferkílómetra.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem kynnt var á haustfundi Sambands bandarískra landfræðinga. Niðurstöðurnar eru í samræmi við þróunina á öðrum jöklasvæðum Alpanna í nágrannaríkjum Frakklands.

Fjallað er um málið á BBC og þar segir að vísindamenn hafi notað gömul landakort og gervihnattamyndir til að reikna út hve mikið jöklarnir hafa hopað á síðustu 40 árum. Fram kemur að jöklarnir í suðurhluta frönsku Alpanna hafi hopað mun meir en í norðurhlutanum og raunar hafa margir jöklar í suðurhlutanum horfið með öllu á fyrrgreindu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×