Innlent

Tilboðin himinhátt yfir kostnaðaráætlun

Patreksfjörður.
Patreksfjörður.
Aðeins tvö tilboð bárust í ræsa- og brúagerð á sunnanverðum Vestfjörðum og reyndust bæði svo hátt yfir kostnaðaráætlun að Vegagerðin ákvað að vinna verkið sjálf. Krafa um að verktakar hafi jákvæða eiginfjárstöðu er talin geta skýrt fá tilboð.

Verkefnin eru á leiðinni milli Brjánslækjar og Patreksfjarðar snúa að því að leggja af þrjár einbreiðar brýr; yfir Hlaðseyrará og Raknadalsá í Patreksfirði, og Hrísnesá á Barðaströnd. Þau eru unnin fyrir hluta af 350 milljóna króna aukafjárveitingu stjórnvalda til að vegagerðar á Vestfjörðum og voru boðin út í einu lagi.

Á tímum verkefnaskorts kom það vegagerðarmönnum á óvart í síðasta mánuði að aðeins tvö tilboð bárust, og reyndust bæði hátt yfir kostnaðaráætlun, sem var upp á tæpar 58 milljónir króna. Geirnaglinn á Ísafirði bauð 86 milljónir, eða 48 prósent yfir áætlun, og Græðir á Flateyri bauð 77 milljónir, eða 33 prósent yfir áætlun. Vegagerðin hafnaði báðum og ákvað í staðinn að vinna sjálf verkið en ráða til sín undirverktaka.

Magnús Jóhannsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar, telur það geta skýrt fá tilboð að gerð var krafa um að verktakar hefðu jákvætt eigið fé og þeir væru fáir slíkir eftir í greininni. Einnig kunni verkið að hafa verið of lítið til að það freistaði stærstu verktakanna.

Fyrir vestan fagna menn samt sem áður vegarbótunum. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir frábært að losna við krappar beygjur og einbreiðar brýr. Þær vilji menn losna við sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×