Erlent

Svipti sig lífi - strítt vegna einhverfu

Michael Raven
Michael Raven mynd/AP
Tólf ára gamall piltur í Bretlandi svipti sig lífi eftir að hann hafði verið lagður í einelti. Stjórnendur skólans efast þó um að einelti hafi verið orsök sjálfsvígsins.

Foreldrar Michael Raven komu að honum látnum á heimili þeirra fyrr í vikunni. Hann hafði hengt sig í herbergi sínu.

Raven var nemandi við Sankti Wilfrid's skólann í Blackburn. Talið er að Raven hafi verið einhverfur.

Eftir að stjórnendur skólans upplýstu um atvikið stofnuðu samnemendur Raven Facebook-síðu í minningu hans. Samkvæmt færslum á síðunni frá nemendunum er talið að Raven hafi verið lagður í einelti vegna röskunar sinnar.

Móðir ungrar stúlku sem lögð var í einelti í Sankti Wilfrid's segir að dóttir sín hafi sagt sér frá því grófa einelti sem Raven hafði orðið fyrir. Hún segir að hópur stúlkna hafi strítt Raven vegna einhverfunnar.

Skólastjórinn David Whyte segist ekkert hafa vita um eineltið og skólinn hafi hingað til tekið slíkt athæfi föstum tökum. Hann harmar fráfall Raven og segir að skólinn muni nú rannsaka aðdraganda sjálfsvígsins.

Whyte segir Raven hafa verið einstaklega skarpann pilt sem hafði unun af því að lesa og tefla. Hann hafi tekið virkan þátt í félagslífi skólans og hefði hlakkað til skólaferðalags til Austurríkis á næsta ári.

Lögreglurannsókn er hafin og verða allar ásakanir um einelti rannsakaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×