Enski boltinn

José Enrique hraunar yfir Newcastle

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jose Enrique í baráttu við Ji-Sung Park.
Jose Enrique í baráttu við Ji-Sung Park. Nordic Photos/AFP
Vinstri bakvörðurinn José Enrique leikmaður Newcastle er allt annað en sáttur við stefnu félagsins í leikmannamálum. Hann segir að með þessum hætti komist liðið aldrei í hóp bestu liða ensku úrvalsdeildarinnar.

Newcastle seldi Kevin Nolan fyrir skömmu til West Ham. Þá hefur Joey Barton tilkynnt stuðningsmönnum að hans framtíð hjá félaginu sé í óvissu eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum. Eins og vinsælt er notar Enrique samskiptasíðuna Twitter til þess að koma skilaboðum til stuðningsmannanna.

„Félagið leyfir öllum bestu leikmönnunum að fara. Í alvöru talað, haldið þið að þetta sé leikmönnunum að kenna? Andy (Carroll), Nobby (Kevin Nolan) o.s.frv.. Þetta félag mun aldrei berjast um sæti meðal sex efstu með þessum hætti," sagði Enrique á Twitter-síðu sinni.

Enrique gekk til liðs við Newcastle frá Villareal árið 2007. Hann átti erfitt uppdráttar til að byrja með en frammistaða hans síðari ár hefur vakið áhuga liða á borð við Arsenal og Liverpool.

„Ég mun líklega yfirgefa Newcastle í lok tímabils þegar samningurinn rennur út og ég er ekki lengur starfsmaður félagsins. Þetta er ekki í mínum höndum," skrifaði Spánverjinn á Twitter-síðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×