Erlent

Bannað að stunda kynlíf vegna lágrar greindarvísitölu

Dómari í Bretlandi hefur meinað karlmanni að stunda kynlíf á þeirri forsendu að hann er með alltof lága greindarvísitölu. Maðurinn er með 48 í greindarvísitölu en meðaltalið er 100.

Í breskum fjölmiðlum er maðurinn kallaður Alan og er 41 árs. Hann var í sambandi með karlmanni sem hann bjó með og sagði fyrir dómi að hann vildi halda því áfram.

Forsvarsmenn sveitarfélagsins sem hann býr í sögðu að hann væri með mikla kynhvöt og að hún væri óviðeigandi. Það tók því þá ákvörðun að láta dómara skera úr um það hvort takmarka ætti samband hans við manninn.

Í rökstuðningi sínum sögðu forsvarsmenn sveitarfélagsins að hann væri með það lága greindavísitölu að hann vissi ekki hvað hann væri að gera.

Sálfræðingur sagði að hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð þegar honum var kennd kynfræðsla.

Dómarinn sagði að fá að stunda kynlíf væri grundvallarmannréttindi. Hann sagði að Alan hefði ekki andlega getu til að hugsa um eigin heilsu. „Alan hefur ekki getu til að samþykkja og taka þátt í kynferðislegum samböndum," sagði dómarinn þegar hann kvað upp úrskurð sinn.

Alan er talinn vera heilbrigður líkamlega en andlega væri hann alls ófær um að stjórna, til dæmis kynferðislegum athöfnum sínum.

Sveitarfélaginu ber nú að fylgjast náið með Alan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×