Innlent

Ríkisstjórnin gegn vilja utanríkismálanefndar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson mynd/Anton Brink
Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru ósáttir við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fela utanríkisráðherra, forræði í Icesave málinu. Ákvörðun ríkistjórnarinnar kemur þvert á ályktun meirihluta utanríkismálanefndar um að málið yrði áfram í höndum efnahags- og viðskiptaráðherra.

Óvæntur meirihluti myndaðist á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstir grænni, studdi ályktun fulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í nefndinni um að Árni Páll Árnason, efnahags-og viðskiptaráðherra, færi áfram með forræði í Icesave málinu.

Ríkisstjórnin fundaði um málið í morgun en ákvað þvert á ályktun utanríkismálanefndar að fela utanríkisráðherra stjórnskipulegt forræði.

„Menn hafa rétt á því að hafa hvaða skoðun sem þeir vilja í utanríkismálanefnd. En það er einfaldlega þannig í samræmi við fyrri samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 12. apríl og sömuleiðis í samræmi við reglugerð um stjórnarrráðið, að þá er þetta mál á vettvangi utanríkisráðherra og hefur alltaf verið," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagði í samtali við fréttastofu í dag að það væri óheppilegt að ESB-aðildarviðræður og Icesave málið væri í höndum sama ráðherra.

Varaformaður Sjálfstæðisflokks segir að málið snúast ekki snúast um persónur eða gagnrýni á Össur.

„...Og efnahags- og viðskiptaráðherra hefur haldið utan um varnir okkar gagnvart ESA, skilað þeim bréfum sem að þegar hafa verið send og að okkar mati einnig náð að skapa ákveðna ró um málið - leiða saman ólík sjónarmið og haldið vel á málinu," segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Össur segir að utanríkisráðherra fari samkvæmt venju með mál af þessu tagi.

„En auðvitað gerir hann það í nánu samráði við þá aðra ráðherra sem tengjast málinu, þessu tilviki forsætisráðherra varðandi neyðarlögin og efnahags- og viðskiptaráðherra varðandi innstæðutryggingar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×