Erlent

Tala særðra komin í 75 - árásarmaðurinn einn að verki

Nú er ljóst að 75 slösuðust í árásinni sem gerð var í belgísku borginni Liege í dag. Fjórir eru látnir og á blaðamannafundi sem lauk fyrir stundu greindi lögregla frá því að árásarmaðurinn hafi verið einn á ferð. Hann hét Nordine Amrani og framdi hann sjálfsmorð eftir að hafa skotið úr riffli og skammbyssu á mannfjöldann og kastað þremur handsprengjum niður á Saint-Lamberte torgið.

Þeir sem létust voru 65 ára gömul kona og tveir unglingar. Þá er sagt að tveggja ára gömul stúlka sé á meðal þeirra sem berjist fyrir lífi sínu.

Nordine Amrani hafði verið boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglu í dag en hann hafði áður verið dæmdur fyrir vopnaburð og eiturlyfjanotkun.

Pakistanska dagblaðið Karachi Post fullyrty fyrr í dag að árásin tengist dómi sem féll yfir foreldrum Sadiu Sheikh, en þau voru í gær dæmd í sama dómshúsi fyrir heiðursmorð á dóttur sinni. Þá hafði sprengjuhótun borist réttinum. Þessar fregnir virðast þó ekki hafa átt við rök að styðjast ef marka má yfirvöld.


Tengdar fréttir

Hryðjuverk í Belgíu

Tveir fórust í sprengingu í belgísku borginni Liege fyrir stundu. Tólf eru særðir, samkvæmt frásögn belgískra fjölmiðla. Fram kemur á fréttavef BBC að nokkrir menn hafi hent sprengiefni og handsprengjum í mannþröng á strætóstoppistöð. Sumir belgískir fjölmiðlar hafa haldið því fram að einn árásarmannanna sé á meðal hinn látnu. Enginn hefur lýst ábyrgð á sprengjunum á hendur sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×