Innlent

Þingmenn Samfylkingarinnar verða ekki meðflutningsmenn tillögunnar

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Enginn úr Samfylkingunni verður meðflutningsmaður þingsályktunartillögu, sem gengur út á að skora á saksóknara að draga ákæru gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, til baka. Þetta staðfestir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar í samtali við Vísi.

Málið var rætt á þingflokksfundi Samfylkingarinnar fyrr í dag og féll í grýttan jarðveg. Samkvæmt heimildum Vísis var það Kristján L. Möller sem vakti máls á tillögunni, en hann greiddi atkvæði gegn því að Geir yrði ákærður á Alþingi.

Ekki er ljóst hver afstaða Vinstri grænna er í málinu, en þingflokkurinn situr nú á þingflokksfundi og fer yfir stöðuna. Þær raddir heyrast að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, sé höll undir tillöguna, en hún var í leyfi þegar ákæran var samþykkt á sínum tíma. Varamaður hennar greiddi atkvæði með ákærunni.

Þingsályktunartillagan er runnin undan rifjum Sjálfstæðisflokksins. Þannig sagði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, þingfréttaritari RÚV í kvöldfréttum, að hugsanlega hefði tillagan verið í undirbúningi í talsverðan tíma hjá flokknum.

Hreyfingin stendur alfarið fyrir utan málið. Þór Saari, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, sagði í samtali við Vísi að enginn hefði komið að máli við þau um að styðja tillöguna.

„Það virðist vera lítil stemmning fyrir þessu,“ sagði Þór spurður hvaða tilfinningu hann hefði fyrir tillögunni. Hann bætti við að það væri ekki hlaupið að því að fá málið á dagskrá þingsins, en þrjátíu mál bíða þar afgreiðslu. Þannig þyrfti að taka málið inn með afbrigðum, og Alþingi þyrfti að greiða sérstaklega atkvæði um það hvort málið kæmist á dagskrá.


Tengdar fréttir

Vilja draga ákæru gegn Geir til baka

Þingsályktunartillaga um að skorað verði á saksóknara alþingis að láta málið gegn Geir H. Haarde, fyrir landsdómi, niður falla, verður lögð fram. Enn ríkir óvissa um hversu margir mæli fyrir tillögunni en þingmenn hafa rætt málið sín á milli í dag.

Rætt um að draga málið gegn Geir til baka

Þingmenn á Alþingi hafa rætt þá hugmynd sín á milli í dag að draga landsdómsmálið gegn Geir Haarde til baka. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, gerir málið að umtalsefni á fésbókarsíðu sinni "Heyrst hefur að hér í þinginu sé að koma fram tillaga um að draga landsdómsmálið gegn Geir Haarde til baka!,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×