Erlent

Þvottagrind reyndist 18 ára stúlku ofjarl

Morgan þurfti því að leita til samnemenda sinna á heimavistinni eftir hjálp og þeir hringdu á slökkviliðið.
Morgan þurfti því að leita til samnemenda sinna á heimavistinni eftir hjálp og þeir hringdu á slökkviliðið. mynd/youtube
Slökkviliðsmenn þurftu að skera átján ára stúlku í Bretlandi lausa eftir að hún festi höfuðið í þvottagrind. Hún sagði þetta vera það vandræðalegasta sem nokkurn tíma hefði komið fyrir hana.

Danielle Morgan segist hafa verið að fíflast í herbergi meðleigjanda síns þegar grindin festist á höfði hennar. Hún hringdi í vinkonu sína og sagðist vera föst. Vinkonan hélt að hún væri ölvuð og skellti á.

Morgan þurfti því að leita til samnemenda sinna á heimavistinni eftir hjálp og þeir hringdu á slökkviliðið.

Morgan sagðist hafa verið að fjarlægja teppi af grindinni þegar hún féll saman og klemmdi höfuð hennar.

Til allrar hamingju fyrir Morgan voru vinir hennar á heimavistinni vopnaðir snjallsímum og tóku atvikið upp á myndband. Hægt er að sjá myndbandið á vefsíðu The Telegraph

En tilfelli Morgans er ekki einsdæmi. Í september lést 38 ára karlmaður eftir að hafa kafnað á þvottagrind. Hann hafði verið að hengja upp þvott og fallið öfugur á grindina sem klemmdist um háls hans.

Dánardómstjóri í málinu sagði að það væru í raun meiri líkur á að verða fyrir loftsteini eða eldingu heldur en að deyja af völdum þvottagrindar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×