Erlent

Æsifréttamaður elti dóttur Rowling uppi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rowling vill að börnin sín fái frið frá fjölmiðlamönnum.
Rowling vill að börnin sín fái frið frá fjölmiðlamönnum. mynd/ afp.
Æsifréttamaður elti einu sinni dóttur metsölurithöfundarins JK Rowling uppi og setti skilaboð í skólatöskuna hennar til þess að reyna að ná tali af rithöfundnum. Rowling hefur notið gríðarlegra vinsælda í einn og hálfan áratug, eða allt frá því að fyrsta bókin hennar um Harry Potter kom út. Í dag kom hún fram fyrir fjölmiðlasiðanefnd og lýsti samskiptum sínum við æsifréttamennina.

Auk Rowling komu leikkonan Sienna Miller og mótorsportkóngurinn Max Mosley fyrir nefndina. Miller sagði fyrir nefndinni að hún hafi kennt fjölskyldu og vinum um þegar persónulegar upplýsingar um hana láku í fjölmiðla, en síðar komist að því að síminn hennar hefði verið hleraður. Mosley sagði að sonur sinn hefði ekki ráðið við sig og ánetjast eiturlyfjum eftir að hann sá myndir af föður sínum í grófu kynlífi.

Rowling sagði fyrir nefndinni að börnin ættu skilið að fá frið fyrir fjölmiðlamönnum og hún reyndi alltaf að halda einkalífi sínu fyrir utan fjölmiðlanna. „Börnin eiga ekkert val um það hverjir foreldrar þeirra eru eða hvernig foreldrar þeirra hegða sér,“ sagði Rowling fyrir nefndinni.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×