Erlent

Fyrsta skáldsaga Jack Kerouac loks gefin út

Fyrsta skáldsagan sem bandaríski rithöfundurinn Jack Kerouac skrifaði hefur verið gefin út rúmum 40 árum eftir að hann lést.

Lengi var talið að handritið að þessari skáldsögu væri glatað en það fannst fyrr í ár. Sögu þessa skrifaði Kerouac þegar hann var tvítugur og byggir hún á reynslu hans sem sjómaður á fraktskipum en hún ber heitið The Sea is My Brother eða Hafið er bróðir minn.

Jack Kerouac var konungur svokallaðar Beat kynslóðar í Bandaríkjunum á árunum uppúr 1950 en meðal þeirrar kynslóðar voru skáld á borð við Allen Ginsburg og William S. Burroughs. Hann varð heimsþekktur fyrir bók sína On The Road eða Á vegum úti en sú bók varð ein helsta biblía Beat kynslóðarinnar.

Í umfjöllun BBC um útgáfuna á Hafið er bróðir minn segir að Kerouac hafi ætíð átt erfitt með að höndla heimsfrægð sína eftir að Á vegum úti kom út en sú bók er talin eitt af bestu skáldverkum Bandaríkjanna fyrr og síðar. Kerouac hóf að drekka ótæpilega eftir útkomu bókarinnar og leiddi sú drykkja að lokum til þess að hann lést árið 1969 aðeins 47 ára að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×