Erlent

Særingamaður páfa: Jóga og Harry Potter eru verkfæri djöfulsins

Faðir Amorth er ekkert að skafa af hlutunum.
Faðir Amorth er ekkert að skafa af hlutunum. Mynd/AFP
Gabriel Amorth er með einn svakalegast starfstitil sem sögur fara af, en hann er særingamaður páfagarðs.  Amorth er 85 ára gamall og hefur sinnt starfi sínu í aldarfjórðung en hann var skipaður af Jóhannesi Páli páfa II. Á ferlinum hefur hann framkvæmt fleiri en sjötíu þúsund særingar og á ráðstefnu sem fram fór í dag í páfagarði sparaði hann ekki stóru orðin. Að mati prestsins er jóga verkfæri djöfulsins og galdrastrákurinn Harry Potter er litlu skárri.

„Þeir sem stunda jóga kalla yfir sig djöfulinn og sama má segja um Harry Potter. Þrátt fyrir að jóga og Potter virðist sakleysisleg fyrirbæri snúast fyrirbærin bæði um galdra og galdrar eru frá djöflinum komnir.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Amorth vekur athygli með ummælum sínum. Árið 2006 lét hann hafa það eftir sér að Adolf Hitler og Jósef Stalín hefðu báðir verið andsetnir af djöflinum.

Raunar virðist þetta hafa verið nokkuð viðtekin skoðun innan páfagarðs því breska blaðið Daily Mail vitnar í dag til skjala sem nýverið voru gerð opinber og sýna að Píus páfi XII, sem var páfi í Seinni heimsstyrjöldinni, hafi reynt að særa djöfulinn út úr Adolf Hitler.

Það mun þó ekki hafa virkað sem skyldi, eftir því sem skjölin segja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×