Fótbolti

Enska knattspyrnusambandið stendur með Rooney

Forráðamenn enska knattspyrnusambandsins standa þétt við bak Wayne Rooney og ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur svo Rooney fái aðeins eins leiks bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Svartfjallalandi.

Það þýðir að Rooney verður alltaf í banni í fyrsta leik EM næsta sumar en UEFA gæti dæmt hann í tveggja leikja bann sem Englendingum finnst eðlilega verra. Málið verður tekið fyrir á fimmtudag.

"Við höfum unnið hörðum höndum á bak við tjöldin og reynt að sjá til þess að málstaður Wayne skili sér. Ef það þarf að áfrýja þá erum við klárir. Við teljum mikilvægt að styðja okkar leikmenn," sagði Adrian Bevington hjá enska knattspyrnusambandinu.

"Aganefndin tekur ákvörðun út frá skýrslu dómara og þar skiptir máli að Wayne hagaði sér mjög vel eftir að hann fékk rauða spjaldið. Hann baðst afsökunar og hagaði sér á mjög þroskaðan hátt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×