Fótbolti

Pepe Reina: Ég var bara söluvarningur í augum Hicks og Gillett

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pepe Reina í leik með Liverpool.
Pepe Reina í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Markvörðurinn Pepe Reina hefur gefið út sjálfsævisögu sína þar sem hann greinir frá því að Arsenal hafi lagt fram tilboð upp á 20 milljónir punda í sig.

Reina er á mála hjá Liverpool og skrifaði undir nýjan samning við félagið í apríl árið 2010.

„Þegar ég skrifaði undir samninginn vonaðist ég til þess að það væru betri tímar handan við hornið,“ segir Reina í bók sinni. „Eigendur félagsins fullvissuðu mig um það. En það leið ekki langur tími þar til að ég uppgötvaði að öll loforðin voru innantóm. Mér fannst ég hafa verið svikinn.“

„Eigendurnir (þáverandi, Hicks og Gillett) voru í stríði hvor við annan. Skuldastaða félagsins var orðin mjög slæm og þó svo að það hefði verið skipt um knattspyrnustjóra fannst mér félagið enn á leið til glötunar.“

„Arseanl kom svo til sögunnar með tilboð upp á 20 milljónir punda sem er himinhá upphæð fyrir markvörð. Mér fannst ég eiga rétt á því að íhuga framtíð mína, þó svo að ég hafi gert það með ákveðnum trega.“

„En svo hafnaði Liverpool tilboðinu. Og það var ekki vegna þess að ég var svo góður markvörður, heldur vegna þess að eigendurnir litu á mig sem mikilvægan varning í söluferli félagsins. Það var allt og sumt.“

Liðinu hefur þó átt betri að gengi að fagna á þessu ári, eftir að Kenny Dalglish tók við af Roy Hodgson sem knattspyrnustjóri í janúar síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×