Innlent

Úrsögn Guðmundar gæti styrkt Sigmund Davíð en veikt Framsóknarflokkinn

Birgir Guðmundsson.
Birgir Guðmundsson.
Úrsögn Guðmundar Steingrímssonar úr Framsóknarflokknum gæti styrkt stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formann flokksins, og á sama tíma veikt stöðu flokksins. Þetta er meðal annars mat Birgis Guðmundssonar, stjórnmálafræðings og dósent við Háskólann á Akureyri.

Hann segir ákvörðun Guðmundar ekki koma á óvart enda hafa þeir, sem eru jákvæðir gagnvart aðildarumsókn ESB, einangrast verulega í flokknum eftir að ný forysta komst til valda eftir bankahrun.

„Það hefur legið lengi fyrir innan Framsóknarflokksina að þetta væri hugsanlega klofningsmál innan flokksins," segir Birgir og bendir á að fyrir hrun hafi Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir litið jákvæðum augum til ESB. Á sama tíma áttu andstæðingar Evrópusambandsins, líkt og Guðni Ágústsson, erfitt uppdráttar innan flokksins.

„En nú hefur þetta snúist við og það af krafti," segir Birgir.

Það er ljóst að Evrópumálin gætu orðið, ekki aðeins Framsóknarflokknum erfið, heldur einnig Sjálfstæðisflokknum, þar sem blendnar skoðanir eru um málið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins virðist meðal annars vera að harðna í andstöðu sinni gegn ESB.

„Það er ákveðinn samhljómur í málflutningi Framsóknarflokksins og forystu Sjálfstæðisflokksins núna en samt eru stórir hópar innan flokkanna sem eru ekki í takt við eigin forystu," segir Birgir.

Spurður hvort það sé pláss fyrir frjálslyndan flokk, líkt og Guðmundur boðar, svarar Birgir því til að svo geti mögulega verið. Sjálfur segist Guðmundur ekki eiga nægilega mikla samleið með Samfylkingunni, sem virðist vera eina stjórnmálaaflið á Íslandi sem er sammála um þá leið sem eigi að fara í málefnum varðandi Evrópusambandsaðild. Birgir segist ekki trúa því að framboð Guðmundar verði einhverskonar spegilmynd af Samfylkingunni og vitnar þar í orð Guðmundar sjálfs í Kastljósi í kvöld.

Birgir segir línurnar nú skýrari innan Framsóknarflokksins. „Og það má vera að það styrki stöðu Sigmundar Davíðs. Hinsvegar hefur Framsóknarflokkurinn ekki lengur jafn breiða skírskotun til kjósenda og því gæti það veikt flokkinn að sama skapi," segir Birgir að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.