Íslenski boltinn

Páll Viðar: Eins og við værum manni færri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs.
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs. Mynd/Anton
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, segir að Stjörnumenn hafi einfaldlega jarðað sína menn í leik liðanna í dag. Stjarnan vann 5-1 sigur þrátt fyrir að hafa verið manni færri í rúman hálfleik.

„Það leit út fyrir að við værum einum manni færri,“ sagði Páll Viðar eftir leikinn. „Við vorum út um allan völl, fáir leikmenn að dekka, hlupum lítið og treystum á að þetta myndi koma að sjálfu sér.“

„Það er ólíkt okkur. Við erum yfirleitt duglegir að berjast eins og við gerðum í fyrri hálfleik og miðað við hann ætluðum við meira að segja að bæta aðeins í.“

„Við vissum að Stjörnumenn myndu hlaupa meira, manni færri, og þeir einfaldlega jörðuðu okkur í því. Þeir áttu þennan sigur fyllilega verðskuldaðan.“

Páll Viðar gerði fimm breytingar á sínu byrjunarliði fyrir leikinn en telur að það hafi ekki reynst honum dýrkeypt í dag.

„Ég vil nú meina að ég sé með ágætishóp. Í dag fengu strákar tækifæri sem hafa minna fengið að spila en staðið sig vel þegar þeir hafa komið inn á. Ég var því ekki að bjóða upp á neitt varalið hér í dag - langt í frá.“

Páll Viðar hvíldi þá leikmenn sem eru á gulu spjaldi fyrir bikarúrslitin um næstu helgi. „Ég vildi ekki að þeir myndu þurfa að horfast í augu við það að missa af bikarúrslitunum með því að fá gult í þessum leik. Ég gaf þeim því frí og ég ber fulla ábyrgð á því.“

Hann segir að tapið í dag muni vissulega draga úr gleðinni í aðdraganda bikarúrslitaleiksins. „Það hefur gengið ágætlega hjá okkur að undanförnu og vonandi verður framhald á því. En nú þurfum við að gíra okkur upp og vera klárir í næsta verkefni. Ég vona að menn þjappi sér saman og setji þennan leik til hliðar, í bili að minnsta kosti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×