Fótbolti

Svíþjóð komið í undanúrslit á HM

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér fagna leikmenn sænska landsliðsins í dag. Mynd. / AFP
Hér fagna leikmenn sænska landsliðsins í dag. Mynd. / AFP
Svíþjóð varð í dag þriðja liðið að tryggja sér sæti í undanúrslitum Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Þýskalandi, en þær sænsku unnu Ástralíu, 3-1, og mæta Japan í undanúrslitum 13.júlí.



Therese Sjogran, leikmaður sænska landsliðsins, skoraði fyrsta mark leiksins á 11. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar Lisa Dahlkvist kom boltanum í netið.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks náðu Ástralir að minnka muninn en þar var að verki Ellyse Perry. Svíar komu sér í frábæra stöðu örfáum andartökum síðar þegar Lotta Schelin skoraði þriðja mark þeirra gullklæddu og nágrannar okkar komnar með aðra löppina í undanúrslitin.

Ástralska liðið reyndi eins og það gat að komast aftur inn í leikinn en allt kom fyrir ekki og Svíþjóð því komið í undanúrslit. Sænska liðið hefur áður komist svona langt á lokakeppni Heimsmeistaramóts, en liðið tapaði fyrir Þjóðverjum í úrslitaleiknum sjálfum árið 2003.

Með því að komast í undanúrslitin á mótinu tryggði liðið sér sæti á Ólympíuleikunum í London á næsta ári, en tvær efstu Evrópuþjóðirnar fá farseðil á þá leika.

Síðar í dag eigast við Brasilía og Bandaríkin í síðasta leik 8-liða úrslitanna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×