Enski boltinn

Peter Ridsdale kaupir Plymouth Argyle

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ridale lengst til hægri þegar hann stjórnaði málum á Elland Road
Ridale lengst til hægri þegar hann stjórnaði málum á Elland Road Nordic Photos/AFP
Allt bendir til þess að Peter Ridsdale muni kaupa enska knattspyrnufélagið Plymouth Argyle fyrir eitt breskt pund. Félagið hefur átt í fjárhagslegum erfiðleikum undanfarin misseri og fór í greiðslustöðvun í mars síðastliðnum.

Ridsdale er ekki ókunnugur ensku knattspyrnunni. Hann hefur komið víða við ýmist sem framkvæmdarstjóri eða stjórnarformaður félaga í neðri deildum. Meðal félaga sem hann hefur starfað fyrir eru Leeds United, Barnsley og Cardiff City. Þetta verður þó í fyrsta skipti sem hann verður sinn eigin herra.

Plymouth hefur gengið allt í óhaginn undanfarin tímabil og fallið um tvær deildir á tveimur árum. Liðið leikur nú í fjórðu efstu deild á Englandi. Borgin Plymouth er sú stærsta á Englandi sem aldrei hefur átt félag í efstu deild enskrar knattspyrnu.

Landsliðsmaðurinn Kári Árnason var á mála hjá félaginu undanfarin tvö tímabil en samningi hans við Kára var sagt upp í lok júní. Ástæðan var sú að Kári vildi fá umsamin laun greidd en leikmenn Plymouth hafa leikið launalaust síðan í október síðastliðnum. Af þeim sökum er leikmannahópur félagsins afar fámennur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem félög í fjárhagslegum erfiðleikum eru keypt fyrir eitt pund. Ken nokkur Bates fjárhesti í knattspyrnufélaginu Chelsea fyrir sömu upphæð árið 1982 og tók yfir skuldir félagsins sem stóð fjárhagslega illa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×