Fótbolti

Baulað á Messi í Argentínu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gríðarleg pressa er á örvfætta snillingnum í heimalandinu
Gríðarleg pressa er á örvfætta snillingnum í heimalandinu Nordic Photos/AFP
Argentínska landsliðið hefur ollið vonbrigðum í Suður-Ameríkukeppninni í knattspyrnu. Liðið hefur gert jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum og spilamennskan ekki verið góð. Svo ósáttir eru stuðningsmennirnir að þeir bauluðu á Lionel Messi skærustu stjörnu landsliðsins í markalausa jafnteflinu gegn Kólumbíu.

„Lionel líður mjög illa. Þetta er í fyrsta skipti sem það hefur verið baulað á hann á knattspyrnuvellinum. Það er erfitt að sætta sig við það,“ sagði faðir hans Jorge Messi í samtali við Radio 10 í Argentínu.

Lið Sergio Batista hefur skapað sér fá færi í leikjunum tveimur gegn Bólivíu og Kólumbíu sem hefðu auðveldlega getað tapast.

„Sannleikurinn er sá að við erum allir að spila undir getu og það er vandamál landsliðsins,“ sagði fyrirliði Argentínu Javier Mascherano á blaðamannafundi.

„Þetta snýst ekki um Leo, við erum allir ósáttir. Það er ekki Messi að kenna að Argentína er að spila illa heldur er málunum öfugt farið,“ sagði miðjumaðurinn.

Það er óhætt að segja að Messi sé ekki vanur því að verða fyrir aðkasti frá áhorfendum. Þessi frábæri knattspyrnumaður nýtur gríðarlegra vinsælda fyrir frammistöðu sína og framkomu innan vallar sem utan með Barcelona. Gengi argentínska landsliðsins hefur þó verið dapurt undanfarið ár og kenna sumir stuðningsmenn knattspyrnusnillingnum um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×