Innlent

Samþykktu fjárstyrk til svæða nálægt gosstöðvunum

Eldgosið í Grímsvötnum.
Eldgosið í Grímsvötnum.
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að veita nú 54,3 milljónir króna til úrbóta í kjölfar eldgosa í Grímsvötnum, Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Áður hafði ríkisstjórnin samþykkt 867,7 milljónir króna vegna ýmissa þátta og viðbragða í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Með þessari samþykkt um 54,3 milljónir til viðbótar eru heildarframlög úr ríkissjóði á árinu 2010 og 2011 vegna eldgosanna þriggja orðin 922 milljónir.

Þar að auki hafa Bjargráðasjóður og Viðlagatrygging staðið straum af umtalsverðum útgjöldum auk þess sem ráðuneyti og stofnanir hafa breytt forgangsröðun sinni og verkefnum til þess að mæta afleiðingum eldgosanna.

Þá var einnig samþykkt að veita 6,2 milljónir króna í fjárframlag vegna uppsetningar annars svifryksmælis á gossvæðið þannig að mæla megi loftgæði á stærra svæði. Mælirinn mun koma til landsins og verða tekinn í notkun fyrri hluta næsta mánaðar.

Þá staðfesti ríkisstjórnin í morgun 6 milljóna króna styrk til Búnaðarsambands Suðurlands vegna aðstoðar sambandsins við bændur á gossvæðinu í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.

Styrkbeiðnin er sem nemur einu ársverki en sambandið hefur lagt út kostnað vegna aðstoðarinnar sem nemur vinnuframlagi upp á 3.843 stundir eða rúmlega tvö ársverk.

Þá hefur sambandið jafnframt notið stuðnings frá norskum bændum og frá Bjargráðasjóði. Heildarkostnaður sambandsins, sem það ber aukalega, er 15 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×