Innlent

Réttað yfir Khat-mönnum

Khat efnið sem lögreglan lagði hald á.
Khat efnið sem lögreglan lagði hald á.
Aðalmeðferð í máli fjögurra karlmanna ákærðir hafa verið fyrir innflutning á 60 kílóum af khat fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þrír mannanna játa sök en efnið átti að senda til Bandaríkjanna og Kanada.

Mennirnir fjórir eru allir frá Bretlandseyjum, en tveir þeirra eiga rætur sínar rekja til norð-Austur Afríku þaðan sem efnið Khat kemur. Khat er unnið úr plöntu en laufblöð hennar eru annaðhvort tuggin eða þau sett út í vatn sem síðan er drukkið eins og te. Áhrif neyslunnar er svipuð og af amfetamíni.

Efnið er ólöglegt í öllum löndum Evrópusambandsins, nema Bretlandi og Hollandi. Málið sem fjallað er um í héraðsdómi í dag snýst um 60 kíló sem fundust hér á landi. Fjórir erlendir karlmenn voru handteknir grunaðir um að hafa komið hingað til að umpakka efninu og undirbúa áframsendingu til Bandaríkjanna og Kanada. Þrír mannanna hafa játað sök en einn þeirra neitar alfarið.

Þó að þetta séu um 60 kíló sem um ræðir er þetta langt frá því að vera risavaxið dópmál. Ætlaður söluhagnaður í Bandaríkjunum yrði til að mynda ekki mikill, eitthvað undir milljón að talið er. En í Eþíópíu kostar kílóið ekki nema nokkra þúsundkalla. Búast má við að verði mennirnir fundnir sekir fái þeir nokkra mánaða dóm, og verði svo vísað úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×