Innlent

Mjólkurbændurnir njóta víst ríkisstyrkja

SB: skrifar
Bjarni Bærings Bjarnason, kúabóndi og framkvæmdastjóri Vesturmjólkur ásamt Halldóri Guðmanni Karlssyni mjólkurfræðingi hjá Vesturmjólk.
Bjarni Bærings Bjarnason, kúabóndi og framkvæmdastjóri Vesturmjólkur ásamt Halldóri Guðmanni Karlssyni mjólkurfræðingi hjá Vesturmjólk.
Bændurnir sem standa að baki fyrirtækinu Vesturmjólk og boða virka samkeppni án ríkisstyrkja njóta sjálfir ríkisstyrkja þegar þeir selja Mjólkursamsalinu afurðir sínar

Í tilkynningu frá félaginu kom fram að Vesturmjólk væri í reynd eini sjálfstæði mjólkurframleiðandinn á landinu og starfaði án allra ríkisstyrkja. Fyrirtækið er eigu þriggja kúabænada á Vesturlandi, þeirra Bjarna Bærings Bjarnasonar, Jóhannesar Kristinssonar og Axels Oddssonar.

Fréttastofa hefur fengið fjölmargar ábendingar um að ekki sé rétt, sem stjórnendur Vesturmjólkar haldi fram, að þeir séu algjörlega lausir undan ríkisstyrkjum. Rétt sé að fyrirtækið sjálft hljóti ekki stuðning frá ríkinu en það sé í raun ekkert óeðlilegt. Til dæmis hljóti Mjólkursamsalan eða MS enga ríkisstyrki. Það séu bændur sem hljóti styrkina en ekki fyrirtækin og í tilfelli bændanna þriggja sem að Vesturmjólk standa þá eigi þeir mjólkurkvóta og fái beingreiðslur frá ríkinu.

Bjarni Bærings Bjarnason, staðfesti í samtali við fréttastofu í morgun, að sú værir raunin. Hann viðurkenndi reyndar að kaupandinn að mjólk þeirra væri einmitt MS, eða mjólkursamsalan - fyrirtækið sem þeir segja standa fyrir einokun á markaðnum. Hann sagðist þiggja greiðslur frá ríkinu fyrir að selja MS sína kvótamjólk en notaði svo umframkvótann til að framleiða vörur Vesturmjólkar.

Jafnvel sú ráðstöfun gæti verið umdeilanleg því í búvörulögum segir að taki mjólkursamlag við umframmjólk skuli sú mjólk vera sett á markað erlendis á ábyrgð mjólkursamlags og framleiðanda. Engin viðurlög eru hins vegar við því að gera það ekki.

Í fréttatilkynningu frá Vesturmjólk segja þeir markmið fyrirtækisins að stuðla að virkri samkeppni á mjólkurmarkaði án ríkisstyrkja. Þetta segja viðmælendur fréttastofu orka tvímælis þar sem bændurnir sem að Vesturmjólk standa þiggi sjálfir ríkisstyrki fyrir að framleiða mjólk fyrir MS en kalli svo umframmjólkina sína í nýjum umbúðum styrkjalausa.


Tengdar fréttir

Neytendur geta brátt keypt mjólk utan "samráðshringja“

Íslenskir neytendur geta nú keypt sér jógúrt sem er framleidd utan við það sem Samkeppniseftirlitið kallar samráðshring mjólkuriðnaðarins, en fyrirtækið Vesturmjólk þiggur enga ríkisstyrki. Og brátt munu þeir geta keypt fituskerta mjólk sem er framleidd án allra styrkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×