Fótbolti

Anelka saknar ekki franska landsliðsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nicolas Anelka ætlar ekki að spila aftur með franska landsliðinu eftir að átján mánaða leikbanni hans lýkur.

Anelka fékk þessa þungu refsingu eftir hans þátt í uppreisn frönsku landsliðsmannanna á HM í Suður-Afríku síðastliðið sumar. Hann var sendur heim eftir harkalegt rifrildi við Raymond Domenech, þáverandi landsliðsþjálfara.

Patrice Evra og Franck Ribery hafa báðir tekið út sína refsingu og spilað með landsliðinu á ný.

Allar líkur eru á því að Frakkland komist í úrslitakeppni EM sem fer fram í Úkraínu og Póllandi næsta sumar og verður Anelka búinn að taka út sína refsingu þá. En hann hefur ekki hug á að spila aftur með liðinu.

„Ég sakna þess ekki og er feginn að ég sé ekki lengur að spila með landsliðinu,“ sagði Anelka við franska fjölmiðla. „Auðvitað er það mér til góðs enda þarf ég að spila færri leiki og get tekið mér frí frá fótbolta af og til og eytt meiri tíma með fjölskyldunni.“

„Þetta er í raun fullkomið. Ég leiði í sjálfu sér hugann lítið að landsliðinu eða þá að spila landsleiki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×