Enski boltinn

Carragher: Við áttum ekki að fá þessa vítaspyrnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Carragher, fyrirliði Liverpool, hefur viðurkennt það að liðið hafi fengið gefins vítaspyrnu í sigrinum á Sunderland í gær. Kevin Friend dæmdi víti eftir að aðstoðardómari hans færði brot John Mensah á Jay Spearing ranglega inn í teig.

„Ég hélt fyrst að þetta væri víti en þegar ég sá þetta aftur í hálfleik þá sá ég að brotið var rétt fyrir utan teig," sagði Jamie Carragher.

„Það vita allir að mark breytir leik og fram að þessu marki hafði leikurinn verið jafn. Sunderland var búið að setja nokkra pressu á okkur," sagði Carragher.

„Í hverri viku koma upp atvik sem menn geta sagt að breyti leikjum. Kannski féll þetta með okkur en sem betur fer skoruðum við annað mark þannig að við unnum allavega leikinn ekki á þessu marki," sagði Carragher.

Carragher er ánægður með Úrúgvæmanninn Luis Suarez sem skoraði seinna markið í gær. „Luis er topp leikmaður og hefur gefið öllu liðinu auka sjálfstraust. Hann sýndi hversu öflugur hann er í þessum leik og það er ljóst að við sökunum hans í Evrópukeppninni í vikunni," sagði Carragher.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×