Enski boltinn

Liðsfélagi Heiðars valinn leikmaður ársins í b-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adel Taarabt fagnar hér marki með Queens Park Rangers.
Adel Taarabt fagnar hér marki með Queens Park Rangers. Mynd/Nordic Photos/Getty
Adel Taarabt, miðjumaður Queens Park Rangers og liðsfélagi Heiðars Helgusonar, hefur verið valinn besti leikmaður ársins í ensku b-deildinni en Taarabt hefur farið á kostum með Queens Park Rangers á þessu tímabili.

Taarabt er með 15 mörk og 21 stoðsendingu í 37 leikjum á þessu tímabili og hefur lagt upp nokkur mörkin fyrir Heiðar Helguson sem hefur skorað 12 mörk. Þeir félagar eiga mikinn þátt í því að Queens Park Rangers er í efsta sætinu og á góðri leið upp í úrvalsdeildina.

Adel Taarabt er 21 árs gamall Marokkómaður sem hefur verið hjá Queens Park Rangers frá 2009 en í fyrstu var hann þar aðeins í láni frá Tottenham. QPR keypti hann hinsvegar frá Tottenham í ágúst fyrir í kringum eina milljón punda.

Connor Wickham, 17 ára framherji Ipswich, var valinn besti ungi leikmaðurinn í deildinni en hann hefur skoraði 6 mörk á þessu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×