Fótbolti

Richards meiddist í stórsigri Englands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Micah Richards í leik með Manchester City á dögunum.
Micah Richards í leik með Manchester City á dögunum. Nordic Photos / Getty Images
U-21 landslið Danmerkur og Englands mættust í vináttulandsleik á Parken í kvöld þar sem að gestirnir unnu 4-0 stórsigur.

Englendingar urðu þó fyrir áfalli snemma leiks þegar að Micah Richards meiddist aftan í læri og þurfti að bera hann af velli.

Danirnir þóttu spila ágætlega framan af leiks en Englendingar komust yfir þegar að Danny Welbeck skoraði laglegt mark eftir skyndisókn.

Scott Sinclair, Daniel Sturridge og Jordan Henderson skoruðu svo hin mörk Englendinga í síðari hálfleik.

Nicolai Jörgensen náði að skora mark fyrir danska liðið en það var ranglega dæmt af vegna rangstöðu.

Englendingar mæta næst Íslandi á mánudaginn en leikurinn fer fram á Deepdale-vellinum, sem er heimavöllur Preston North End.

Danir verða gestgjafar þegar að úrslitakeppni EM U-21 liða verður haldin á Jótlandi í sumar en þar verða England og Ísland einnig á meðal þátttökuþjóða. Ísland og Danmörk eru saman í riðli og mætast í Álaborg þann 18. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×