Eþíópíumaðurinn Kenenisa Bekele náði ekki að klára 10 km hlaup vegna meiðsla á HM í frjálsíþróttum í morgun. Þar með er ótrúlegri sigurgöngu hans í vegalengdinni lokið.
Landi hans, Ibrahim Jeilan, kom fyrstur í mark í greininni en hann hljóp á 27:13,81 mínútum.
Lokaspretturinn í hlaupinu var æsispennandi en Jeilan tók fram úr Mo Farah frá Bretlandi á síðustu metrunum. Farah fékk því silfur en annar Eþíópíumaður, Imane Merga, fékk brons.
Bekele er líklega einn allra besti langhlaupari allra tíma en hann varð að hætta í miðri keppni í morgun vegna meiðsla í fæti. Hann hefur verið að glíma við meiðslin síðustu tvö árin og var lengi vel óvíst hvort hann myndi taka þátt í keppninni.
Þótt ótrúlega megi virðast hefur Bekele aldrei tapað keppni í þessari vegalengd en hann er 29 ára gamall.
Hann vann til gullverðlauna í greininni á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og Peking 2008. Hann hefur unnið gull í greininni á síðustu fjórum heimsmeistarakeppnum en missti titilinn í dag.
Bekele á einnig góðan árangur að baki í 5 km hlaupi. Hann vann gull í Peking og silfur í Aþenu. Hann vann gull í Berlín fyrir tveimur árum og brons í París árið 2003.
Heimsmeti hans í greininni, 26:17,53 mínútum, var þó ekki ógnað í dag.
Ótrúlegri sigurgöngu Bekele lokið
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
