Fótbolti

Spánn, Holland og Ítalía geta tryggt sig inn á EM í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar ættu að tryggja sig inn á EM í kvöld.
Spánverjar ættu að tryggja sig inn á EM í kvöld. Mynd/AFP
Þrjár þjóðir eiga möguleika á því í kvöld að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM sem fer fram í Póllandi og Úkraínu næsta sumar. Þjóðverjar voru fyrstir til að komast upp úr undankeppninni á föstudaginn var en það gæti bæst í hópinn í dag.

Ítalir geta tryggt sig inn á EM vinni þeir Slóveníu á Stadio Artemio Franchi vellinum í Flórens. Ítalir hafa átta stigum meira en Slóvenía og Serbía en Slóvenía hefur leikið leik meira en hinar þjóðirnar og á því ekki lengur möguleika á því að vinna riðilinn.

Hollendingar geta líka komist inn á EM í kvöld en þeir þurfa þá líka að treysta á önnur úrslit. Ef Holland vinnur Finnland í Helsinki og Svíar vinna ekki San Marínó þá er hollenska liðið búið að vinna riðilinn. Það eru samt ekki miklar líkur á því að Svíar tapi stigum á móti San Marínó sem steinlá 0-11 á móti Holland á föstudaginn.

Spánverjar geta líka komist inn á EM í kvöld en til þess að svo verði þá þurfa Heims- og Evrópumeistararnir að vinna Liechtenstein á heimavelli sem verður að teljast líklegt.

Danir og Norðmenn mætast einnig í gríðarlega mikilvægum leik í okkar riðli. Portúgalir spila ekki í kvöld og eiga því leik inni á Norðmenn en það eiga Danir líka eftir leik kvöldsins.

Vinni Norðmenn þá eru þeir í það minnsta búnir að tryggja sér sæti í umspilinu og tap Dana myndi þýða að þeir geta ekki lengur unnið riðilinn en eiga enn möguleika á sæti í umspilinu.

Svíar (E-riðill), Frakkar (D-riðill), Grikkir (F-riðill) og Króatar (F-riðill) eiga möguleika á því að tryggja sér í það minnsta sæti í umspili í kvöld en Englendingar (G-riðill) eru þegar öryggir með sæti í umspili.

Efsta liðið í hverjum riðli kemst beint áfram á EM ásamt því liði sem nær besta árangrinum í 2. sæti. Hin átta liðin sem enda í 2. sæti í sínum riðli fara síðan í umspil þar sem fjögur lið tryggja sér sæti á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×