Enski boltinn

Chelsea endurheimti toppsætið - Drogba með tvennu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Drogba fagnar öðru marka sinna í dag.
Drogba fagnar öðru marka sinna í dag. Nordic photos/Getty

Chelsea ýtti Arsenal út úr titilbaráttunni, í bili að minnsta kosti, með 2-0 sigri í miklum Lundúnaslag á Stamford Bridge-leikvanginum í dag.

Framherjinn kraftmikli Didier Drogba skoraði bæði mörk Chelsea í leiknum en þeir bláklæddu endurheimtu þar með efsta sæti deildarinnar á ný.

Liðin skiptust á að sækja framan að leik en það voru heimamenn í Chelsea sem skoruðu mörkin. Drogba skoraði fyrsta mark leiksins strax á 8. mínútu eftir að John Terry hafði skallað hornspyrnu á Fílabeinsstrendinginn sem þakkaði fyrir sig með því að pota boltanum í netið á fjærstönginni.

Andrey Arshavin var nálægt því að jafna metin þegar hann komst í ákjósanlegt færi eftir glæsilega sendingu frá Cesc Fabregas en Petr Cech sá við honum.

Drogba sýndi svo styrk sinn á 23. mínútu þegar hann fékk stungusendingu frá Frank Lampard sem hann þrumaði í þaknetið á marki Arsenal eftir að hafa slitið sig frá hjálpvana varnarmönnum Arsenal. Staðan var 2-0 fyrir Chelsea í hálfleik.

Arsenal sýndi oft fín tilþrif í síðari hálfleiknum en vantaði að reka smiðshöggið á sóknir sínar en Chelsea lá meira til baka og beitti skyndisóknum. Drogba var svo nálægt því að fullkomna þrennuna þegar hann átti glæsilega aukapyrnu í slá þegar um tíu mínútur lifðu leiks.

Hvorugu liðinu tókst að skora eftir það og niðurstaðan sem segir 2-0 sigur Chelsea. Chelsea er þvi komið með tveggja stiga forskot á Manchester United í toppbaráttunni en Arsenal er nú níu stigum á eftir grönnum sínum í Lundúnum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×