Enski boltinn

Guðjón: Eiður verður frábær ef Stoke kemur honum í form

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón á hliðarlínunni með Stoke á sínum tíma.
Guðjón á hliðarlínunni með Stoke á sínum tíma.

Guðjón Þórðarson er á því að Eiður Smári Guðjohnsen geti gert fína hluti með Stoke í vetur að því gefnu að hann komist í toppform og liðið noti hann rétt.

Guðjón fékk níu Íslendinga til Stoke á sínum tíma en Eiður var allt of dýr fyrir félagið á þeim tíma.

Þjálfarinn vann þó með Eiði Smára hjá landsliðinu og þekkir því vel til Eiðs Smára.

"Ég tók hann inn í landsliðið þegar hann var ungur og nýbúinn að jafna sig af erfiðum ökklameiðslum. Eiður stóð sig vel hjá mér og hefur átt frábæran feril. Því miður var hann of dýr þegar ég stýrði Stoke," sagði Guðjón við This is Staffordshire.

"Ég held að hann geti staðið sig mjög vel fyrir Stoke. Ég vona að hann standi sig því þá munu stuðningsmennirnir elska hann. Ef liðið kemur honum í form þá verður hann frábær.

"Það þarf að hjúkra honum og sjá vel um hann. Það er ekki hægt að leggja of mikið á hann og hætta þar með á meiðslum. Það þarf líka að koma boltanum til hans. Það er ekki hægt að ætlast til þess að hann sæki boltann alltaf út við hornfánann.

"Eiður getur verið duglegur og pressað leikmenn með boltann en það er ekki hans stíll að elta og tækla. Eiður er ekki eigingjarn leikmaður og leitast við að opna vörnina fyrir bæði sjálfan sig og félaga sína. Hann er klókur leikmaður og hinir leikmennirnir í liðinu verða að vera á tánum þegar hann setur boltann í opin svæði. Hann getur aðeins gert ákveðið mikið sjálfur. Félagar hans verða að læra að lesa hann," sagði Guðjón og bætir við.

"Við kölluðum annan leikmann hvítu perluna en ég tel Eið líka vera hvíta perlu. Hann er hávaxinn, ljóshærður og myndarlegur. Ég valdi hann samt í liðið út af fótboltahæfileikunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×