Fótbolti

Eyjólfur: Erum að leika skemmtilega knattspyrnu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson. Mynd/Valli
Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari U-21 liðs Íslands, var ánægður með 2-1 sigur liðsins á Skotum í kvöld. Liðið lék oft á tíðum frábærlega gegn skipulögðum Skotum sem léku aftarlega á vellinum.

„Við héldum áfram að spila eftir sama skipulagi þrátt fyrir að þeir kæmust yfir og náðum að skapa okkur fullt af færum. Ég hefði vissulega viljað skora fleiri mörk en við sáum að við erum að opna skosku vörnina. Nú þurfum við að nýta færin í Skotlandi," segir Eyjólfur sem er ánægður með hvernig liðið er að spila.

„Við erum að leika skemmtilega knattspyrnu og skorum frábær mörk í þessum leik. Við töluðum um það fyrir leikinn að skjóta mikið fyrir utan vítateig því við vitum að það er ekki sterkasta hlið skoska markvarðarins."

Takist Íslandi að halda markinu hreinu í Skotlandi er liðið komið áfram í úrslitakeppnina og telur Eyjólfur að það sé mjög raunhæft. „Ég tel að við séum með betra lið. Það sem við þurfum að laga fyrir seinni leikinn er að halda ró okkar og reyna verjast skynsamlega. Skotarnir sýndu það í lok leiksins að þeir geta sótt að okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×