Enski boltinn

Drogba: Klárlega mitt besta tímabil hjá Chelsea

Elvar Geir Magnússon skrifar
Didier Drogba hefur raðað inn mörkum.
Didier Drogba hefur raðað inn mörkum.

Didier Drogba, sóknarmaður Chelsea, segir að það muni ekkert gefa sér að hann vinni gullskóinn á tímabilinu ef lið hans verður ekki Englandsmeistari.

Drogba skoraði tvö gegn Portsmouth í vikunni og er nú kominn með 24 mörk í deildinni. Hann er aðeins tveimur mörkum á eftir Wayne Rooney hjá Manchester United.

„Mér er sama hvort ég verði markahæstur svo lengi sem við vinnum deildina. Ég vann gullskóinn 2007 og það myndi gleðja mig að vinna hann aftur en það sem máli skiptir er að Chelsea vinni deildina. Fótbolti er liðsíþrótti," sagði Drogba.

„Það er fínt að fá einstaklingsverðlaun en miklu skemmtilegra að vinna til verðlauna með vinum þínum og liðsfélögum. Þetta tímabil hefur verið langt og erfitt. Það yrði stimplað sem slappt tímabil hjá okkur ef ég vinn gullskóinn en Chelsea tekur ekki meistaratitilinn."

Drogba varð 32 ára fyrr í þessum mánuði en hann hefur skorað 124 mörk á sex tímabilum sínum á Stamford Bridge. Meira en nokkur erlendur leikmaður hefur gert í sögu félagsins.

„Ef við höfum það í huga að ég tek ekki lengur vítaspyrnur liðsins, missti út mánuð vegna Afríkukeppninnar og spilaði ekki í fyrstu leikjunum í Meistaradeildinni þá er þetta klárlega mitt besta tímabil hjá Chelsea," sagði Drogba sem samtals er kominn með 30 mörk í öllum keppnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×