Enski boltinn

Lucas: Ánægður að ég fór ekki í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Brasilíumaðurinn Lucas segist afar ánægður með þá ákvörðun Liverpool að selja hann ekki nú í sumar.

Lucas hefur verið lykilmaður í liði Roy Hodgson í haust en Liverpool hefur þó ekki gengið neitt sérstaklega vel og er sem stendur í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Honum var tilkynnt í lok síðasta tímabils að til greina kæmi að selja hann ef félagið fengi ásættanlegt tilboð fyrir hann. Lucas var orðaður við Juventus, Sevilla og Santos en ekkert varð af sölunni.

Nú hafa fregnir borist af því að Lucas verði mögulega boðinn nýr og betri samningur við Liverpool.

„Þegar þeir tilkynntu mér þetta sagði ég að ég myndi reyna að finna mér nýtt félag en að ég myndi ekki sætta mig við hvað sem er," sagði Lucas við enska fjölmiðla.

„Ég taldi að ég gæti verið hjá góðu félagi þar sem ég hafði verið hjá Liverpool í þrjú ár. En ég sagði líka að ég væri líka reiðubúinn að berjast fyrir mínu sæti í liðinu. Ég myndi æfa og vera fagmannlegur. Það var ekki auðvelt en stundum þarf maður að halda ró sinni."

„Það bárust nokkur tilboð en Liverpool tók þeim ekki. Ég er ánægður með að ég er enn hjá félaginu því ég hef verið að spila vel og hjálpa mínu liði. Ég er mikilvægari leikmaður í dag en ég var fyrir nokkrum mánuðum síðan."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×