Enski boltinn

Cole: Var freistandi að fara frá Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ashley Cole í leik með Chelsea.
Ashley Cole í leik með Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Ashley Cole, leikmaður Chelsea, hefur viðurkennt að hann hafi íhugað að fara frá félaginu í sumar en að Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri, hafi sannfært hann um að vera áfram.

Cole var sterklega orðaður við Real Madrid í sumar þar sem hans gamli stjóri hjá Chelsea, Jose Mourinho, var við stjórnvölinn. Umfjöllun ensku pressunar um einkalíf Cole og skilnaðinn við eiginkonuna Cheryl ýtti undir þær sögusagnir þar sem hann var sagður vilja flytja frá Englandi.

„Þetta voru erfiðir tímar fyrir mig - afar erfiðir," sagði Cole í viðtali við ESPN. „Ég íhugaði að fara en Ancelotti gerði mér grein fyrir að hann vildi hafa mig áfram. Leikmennirnir vildu ekki heldur að ég færi."

„Ég er feginn því að ég ákvað að vera áfram. Það voru margir sem sögðu að ég væri að gefast upp en ég er hér enn. Þetta hefur verið erfitt en vonandi er það versta afstaðið."

Cole sagði enn fremur að hann vildi gjarnan spila hjá Chelsea þar til ferli hans lýkur en hann er nú 29 ára gamall.

„Ég vildi gjarnan geta sagt að ég ætti fjögur ár á toppnum eftir en í sannleika sagt þá er ég bara að taka eitt ár fyrir í einu og hlusta á hvað líkaminn segir mér. Ég er 29 ára en líður eins og ég sé 35 eða 40 ára. Það er stundum erfitt að fara fram úr á morgnana."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×