Fótbolti

Beckenbauer hefur litla trú á FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Franz Beckenbauer.
Franz Beckenbauer. Nordic Photos / Getty Images

Franz Beckenbauer segist hafa misst allt traust á Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA, eftir kosninguna um HM 2018 og 2022.

Beckenbauer á sæti í framkvæmdarstjórn FIFA og var einn þeirra 22 sem höfðu atkvæðisrétt í kjörinu um hvar HM ætti að fara fram annars vegar 2018 og hins vegar 2022.

Rússar munu halda keppnina árið 2018 og hún fer svo fram í Katar fjórum árum síðar.

Englendingum gekk skelfilega í kjörinu um 2018-keppnina og fékk aðeins tvö atkvæði í fyrstu umferð og Ástralir eitt atkvæði í kjörinu um HM 2022.

„Framkvæmdarstjórninni var sagt að hvorki við né almenningur fengi að vita nákvæman fjölda atkvæða sem hver umsókn fékk," sagði Beckenbauer.

„Við fengum aðeins að vita hvaða umsókn hefði dottið út eftir hverja umferð. Svo, nokkrum klukkustundum síðar, heyrði ég í útvarpinu hvað hver umsókn fékk mörg atkvæði."

„Ég hef nú takmarkaða trú á FIFA. Þeir hafa gert lítið úr þeim sjö umsóknum sem töpuðu - sérstaklega Englandi og Ástralíu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×