Enski boltinn

Enn skorar Heiðar fyrir QPR sem fór á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helguson í leik með QPR.
Heiðar Helguson í leik með QPR. Nordic Photos / Getty Images

Heiðar Helguson var enn á skotskónum með QPR í ensku B-deildinni í kvöld en hann skoraði þriðja markið í 3-0 sigri á Ipswich á útivelli.

Heiðar spilaði allan leikinn og skoraði markið úr vítaspyrnu á 68. mínútu. Hann hefur nú skorað fjögur mörk í fyrstu sex leikjum tímabilsins.

Millwall og Reading gerðu markalaust jafntefli í sömu deild í kvöld en Brynjar Björn Gunnarsson var allan leikinn á bekknum hjá Reading.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Coventry sem tapaði fyrir Swansea, 2-1, í kvöld.

QPR er enn taplaust í deildinni og er komið á topp deildarinnar þar sem að Cardiff tapaði sínum leik í kvöld, 2-1 fyrir Leicester. QPR er með sextán stig, Cardiff með þrettán og næstu lið eru með ellefu stig.

Reading er í ellefta sæti með níut stig og Coventry í því fjórtánda með átta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×