Innlent

Íslenska sveitin bjargaði tveimur konum

Liðsmönnum íslensku alþjóðabjörgunarsveitin tókst að bjarga tveimur konum lifandi úr rústum fjögurra hæða verslunamiðstöðvar á Caribbean Market sem er verslunarstaður í höfuðborg Haítí í dag.

Konurnar, sem eru 25 til 30 ára, eru ekki mikið slasaðar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Verið er að hlúa að þeim af björgunaraðilum, meðal annars með vökvagjöf.

Sveitin tekur nú þátt í björgunaraðgerðum í höfuðborginni sem varð einna verst úti í skjálftanum sem reið yfir eyjuna í fyrrakvöld.










Tengdar fréttir

Íslendingarnir í sínu fyrsta verkefni

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin vinnur nú að sínu fyrsta rústabjörgunarverkefni á Haítí. Tveir hópar sveitarinnar leita í rústum fjögurra hæða húss/verslunamiðstöðvar á Caribbean Market sem er verslunarstaður í Port au Prince og er talið að þrír einstaklingar sem eru á lífi séu fastir í rústunum.

Rústabjörgunarsveitin fær litla hvíld

Íslenska björgunarsveitin sem send var til Haítí fær litla hvíld en björgunarstarf hefst innan skamms. Liðsmenn sveitarinnar gátu lagst til hvílu á milli klukkan sex og sjö í morgun en til stóð að þeir myndu hefja undirbúning fyrir björgunarstörf klukkan rúmlega 10. Þetta segir Dagbjartur Brynjarsson, einn af stjórnendum sveitarinnar, sem staddur er í höfuðstöðvum Slysavarnafélagsins Landsbjargar hér á landi. Mikilvægt sé að nýta dagsbirtuna vel en fimm klukkustunda tímamismunur er á milli Haítí og Íslands.

Bíður milli vonar og ótta eftir fréttum

Elda Þórisson Faurelien talaði í síma við frænda sinn í Port-au-Prince klukkustund áður en jarðskjálftinn reið yfir í fyrrakvöld. Síðan hefur hún ekki heyrt af afdrifum hans, annars skyldfólks – þar á meðal bróður og fjölskyldu hans – né vina í borginni. Sama á við um starfsfólk og nemendur barnaskóla sem Elda stofnaði ásamt fleirum fyrir nokkrum árum. Látlausar tilraunir hennar í gær til að fá fréttir af sínu fólki báru ekki árangur.

Íslenska björgunarsveitin hefst handa

Íslenska björgunarsveitin, sem send var til Haíti, er nú búin að koma sér upp búðum við alþjóðaflugvöllinn, eftir að hafa kannað ýmsa staði til þess inni í borginni.

Íslendingarnir á Haítí - myndir

Valgarður Gíslason ljósmyndari Fréttablaðsins slóst með í för þegar Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin hélt í gær til Haítí. Sveitin tekur nú þátt í björgunaraðgerðum í borginni Port au Prince sem varð einna verst úti í skjálftanum sem reið yfir eyjuna í fyrrakvöld. Valgarður er nú á leið aftur til Íslands en hann hefur sent nokkrar myndir af því þegar verið var að afferma þotuna á flugvellinum í Port au Prince. Þær má sjá í meðfylgjandi myndaalbúmi.

Búið að safna níu milljónum á einum sólarhring

Hátt í níu milljónir hafa safnast í átaki Rauða krossins vegna hamfaranna á Haítí en söfnunin hófst fyrir um sólarhring síðan. Þetta kemur fram á heimasíðu Rauða krossins.

Íslenskur sendifulltrúi til Haítí í dag

Hlín Baldvinsdóttir, með reyndustu sendifulltrúum Rauða kross Íslands, heldur til Haítí í dag. Hún mun gegna stöðu fjármálastjóra í sérfræðingateymi Alþjóða Rauða krossins sem meta mun þörf á aðstoð næstu vikna og mánaða að því er fram kemur í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands. Hlín hefur unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir Rauða kross Íslands og Alþjóða Rauða krossinn frá árinu 1998, jafnt í þróunarstarfi sem neyðaraðgerðum í kjölfar hamfara.

Síminn tekur ekki gjald af símasöfnun fyrir Haítí

„Málið er að það urðu leiðindamistök,“ segir Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, en þeir sem hafa hringt í styrktarsíma Rauða Krossins í þeim tilgangi að styrkja björgunarstarf í Haítí, hafa orðið varir við að Síminn tilkynnir viðkomandi að 79 krónu gjald renni til símans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×