Innlent

Bíður milli vonar og ótta eftir fréttum

Elda hefur ekki heyrt frá fólkinu sínu í Port-au-Prince.
fréttablaðið/vilhelm
Elda hefur ekki heyrt frá fólkinu sínu í Port-au-Prince. fréttablaðið/vilhelm
Elda Þórisson Faurelien talaði í síma við frænda sinn í Port-au-Prince klukkustund áður en jarðskjálftinn reið yfir í fyrrakvöld. Síðan hefur hún ekki heyrt af afdrifum hans, annars skyldfólks – þar á meðal bróður og fjölskyldu hans – né vina í borginni. Sama á við um starfsfólk og nemendur barnaskóla sem Elda stofnaði ásamt fleirum fyrir nokkrum árum. Látlausar tilraunir hennar í gær til að fá fréttir af sínu fólki báru ekki árangur.

Elda á og rekur kaffihúsið Café D"Haítí við Tryggvagötu í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum, Methúsalem Þórissyni. Þau kynntust þegar hann var við störf á Haítí og fluttust til Íslands fyrir tæpum fjórum árum.

Þau segja landið einkar illa í stakk búið til að takast á við náttúruhamfarir á borð við þessar. Allir innviðir séu veikir; stjórnsýsla, heilbrigðiskerfi, samgöngu- og fjarskiptakerfi.

Tvær aldir eru síðan landið varð síðast illa úti af völdum jarðskjálfta en sterkir fellilbyljir ríða þar jafnan yfir á haustin. Oft verður mannfall af þeirra völdum, stundum mikið.

Á Café D"Haítí selja Elda og Methúsalem kaffi sem ræktað er á Haítí. Þau skipta við bændur í landinu og eiga við þá svonefnd sanngjörn viðskipti (fair trade). Þau langaði að gera eitthvað sem bæði þau sjálf og Haítí gætu haft hag af.

Fjöldi fólks lagði leið sína á Café D"Haítí í gær. Vildi það spyrja Eldu frétta, sýna henni stuðning og jafnvel gefa peninga sem komið gætu að notum ytra. - bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×